Vetrarviðbúnaður

Það er margt sem þarf að hafa í huga á haustmánuðum er tilheyrandi lægðir og vindbelgingur herja á. Eitt af því er að tryggja að hlutir sem auðveldlega geta farið á flug, líkt og hinir seinþreyttu og óvinsælu ferðalangar trampólín, séu teknir saman og einnig að ruslatunnum verði fundinn viðeigandi staður þar sem þær skulu festar. 

Ruslatunnulok eiga það til að opnast í vindi sem getur valdið því að laust rusl fer af stað og fýkur um nágrennið eða lengra, öllum til ama. Þess vegna ber að gæta að lokin opnist ekki sjálfkrafa þegar hreyfir vind. Teygjur eru yfirleitt auðveld lausn við þessu vandamáli. Alltaf þarf þó að hafa í huga að losun geti farið óhindrað og auðveldlega fram af sorphirðuaðilanum. Er líður á veturinn og snjóa fer ber að moka vel frá tunnum og ruslakerrum til þess að auðvelt sé að renna þeim að ruslabílnum.