Spurt og svarað

Spurt og svarað!
Hér eru nokkrar algengar spurningar um flokkun sorps og svör við þeim. Endilega sendið okkur fyrirspurn á kubbur@kubbur.is eða með því að hringja í 456-4166 og við munum leitast við að svara þeim strax. Svör og fyrirspurnir verða síðan sett inn hér til upplýsinga fyrir aðra.

 

Hvað verður um sorpið frá Ísafjarðarbæ?

Allt sorp verður flokkað og það sem ekki fer til endurvinnslu, endurnýtingar eða frekari úrvinnslu er flutt suður á Mýrar (Fíflholt) þar sem það er urðað. Endurvinnsluhluti sorpsins er ýmist baggaður til útflutnings eða fluttur til endurvinnslu/nýtingar innanlands.

 

Hvað verður um sorpið frá Vestmannaeyjabæ?
Allt sorp verður flokkað og það sem ekki fer til endurvinnslu, endurnýtingar eða frekari úrvinnslu er flutt í Sorpeyðingarstöðinna Kölku í Reykjanesbæ þar sem það er brennt. Endurvinnsluhluti sorpsins er ýmist baggaður til útflutnings eða fluttur til endurvinnslu/nýtingar innanlands.

 

Hver verður kostnaðurinn við breytt fyrirkomulag sorpmála?
Eins og ljóst er þá var það ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að loka sorpendurvinnslustöðinni Funa og taka upp flokkun sorps, urðun, endurnýtingu og endurvinnslu. Er það í samræmi við áætlanir stjórnvalda um minnkun sorps, hvort heldur það er síðan urðað eða eytt með öðrum hætti. Von yfirvalda er að breytt fyrirkomulag verði til þess að lækka sorpgjöldin, og flest sem bendir í þá átt að svo verði.

 

Hvað með frauðbakka t.d. undan kjötvörum?
Ef frauðbakkinn er með plastmerki (sjá sorphirðuhandbók) þá þarf að skola bakkann og setja með plastinu sem fer í plastpoka í endurvinnslutunnuna. Ef hann er ekki merktur fer hann í tunnuna fyrir almennt heimilissorp. Muna þarf að skola alla matarafganga af þeim umbúðum sem fara í endurvinnsluna.

 

Hvað með plast, almennt?
Plastbakkar, frauðplastbakkar þurfa að vera með þríhyrningsmerkinu, ef þeir eiga að flokkast með endurvinnanlegu plasti í endurvinnslutunnuna, muna að það þarf að skola matarleifar og þerra bakkana. Annars eiga þeir að fara í almennu heimilissorptunnuna.
Allir plastpokar mega fara með endurvinnanlegu plasti, ákveðnar undantekningar eru þó á þessu, t.d. plastpokar undan kornflexi og matarkorni (fara með almennu heimilissorpi). Þunnir plastpokar undan brauði og ávöxtum eru endurvinnanlegir og fara því með endurvinnanlegu plasti.
Allt  plast sem er merkt með þríhyrningsmerki fer í plastpoka ofan í endurvinnslutunnuna, þar með taldir sjampóbrúsar og brúsar undan þvottaefni.
Allt ómerkt hart plast/frauðplast verður að fara í tunnuna fyrir almennt heimilissorp.

Ef um er að ræða einangrunarplast þá er það endurvinnanlegt, og verður að skila í Funa eða á söfnunarstöðvar.

 

Álhúðaðar fernur, hvert fara þær?
Fernur  sem eru álhúðaðar að innan fara með öðrum fernum, en verða að skolast og þerrast fyrst.

Fatnaður - hverning er hann meðhöndlaður?

Rauði krossinn veitir öllum fatnaði viðtöku (S:456-4406) í Vestrahúsinu á Ísafirði á milli kl. 10 og 16 alla virka daga. Ath. bæði má skila hreinu og óhreinu, heilu og slitnu, RKÍ flokkar og þvær fatnaðinn ef þarf.

 

Hvað skal gera við gler?
Best er að skila öllu gleri á söfnunarstöðvar, en ef það er í litlu magni má setja það í tunnuna fyrir almennt heimilissorp. Gler er unnt að nota til landfyllingar ef það er flokkað frá, en hjá Ísafjaðarbæ fer það nú með almennu sorpi til urðunar. Gler má alls ekki setja í endurvinnslutunnuna.

 

Hvað með raftæki, svo sem brauristar, kaffivélar, tölvur, eldavélar, hárþurrkur o.s.frv.?
Öllum raftækjum ber að skila á söfnunarstöðvar þar sem þeim er safnað saman og fara í sérstakan endurvinnslufarveg. Ekki þarf að greiða sérstaklega fyrir slík tæki.

 

Hvað skal gera við ísskápa, frystikistur og frystiskápa?
Alla ísskápa og frystitæki skal afhenda á söfnunarstöðvum/Funa. Ekki er greitt fyrir skil (eyðingu) á þessum tækjum, enda er úrvinnslugjald greitt af þeim tækjum við kaup. Í þessum tækjum eru kælimiðlar sem þarf sérfræðiþekkingu til að fjarlægja þannig að það skaði ekki umhverfið.

 

Hvað skal gera við gluggaumslög?
Gluggaumslög og önnur umslög mega fara með öðrum pappír, laus í endurvinnslutunnuna.

 

Hvað með jólapappír?
Jólapappír má fara laus með öðrum pappír í endurvinnslutunnuna.

 

Hvað með kaffipakka?
Kaffipakkar eru yfirleitt samsettir úr plasti og áli og fara því með heimilissorpinu, en ef þeir eru eingöngu úr áli, mega þeir fara með málmdósum og lokum í plastpoka í endurvinnslutunnuna.

 

Hvað með kertavax?
Kertavax er unnt að endurvinna og endurnýta, er til dæmis mikið notað í félagsstarfi hjá eldri borgurum, en ef ekki er vilji né aðstæður hjá fólki til að koma því til endurnotkunar, þá má kertavax og kertaafgangar fara í tunnuna fyrir almennt heimilissorp.

 

Bein af dýrum?
Bein af lömbum, nautum, fiski, kjúklingum eða öðrum dýrum eiga að faraí tunnuna fyrir almennt heimilissorp.


Eftirfarandi heimilissorp fer í tunnuna fyrir almennt heimilissorp:

 • matarleifar, áleggsbréf, ostabox, tyggjó
 • pennar, blýantar, vax- og vatnslitir
 • bómull, eyrnapinnar
 • gler, úrgangur frá gæludýrum
 • frauðplast, ryksugupokar, pokar
 • notaðar litaðar munnþurrkur, servéttur, eldhúspappír
 • bleiur, dömubindi, latexhanskar
 • matarsmitaðar umbúðir, s.s.  smjörpappír, álpappír og pappi. Ath. ef álpappír og pappi er án matarsmits fer hann í endurvinnslutunnuna!
 • blandaðar umbúðir (plast+ál), CD-diskar
 • kaffikorgur, tannkremstúpur
 • ís- og frostpinnaspýtur og bréf, með eða án vaxáferðar
 • og í raun allt almennt heimilissorp sem ekki er endurvinnanlegt

 

Hvað er skilgreint sem spilliefni og hvað er gert við það sorp?

Þessi sorpflokkur hefur nokkra sérstöðu þar sem hann inniheldur eiturefni. Dæmi um spilliefni sem algeng eru á heimilum manna eru: olía, leysiefni, s.s. þynnir og terpentína, lakk- og málningarafgangar, skordýraeitur, sýrur og basar (lútar), kvikasilfur, úðabrúsar, bílarafgeymar, rafhlöður, flúrperur, sparperur og lyfjaafgangar.
Á söfnunarstöðvum og í Funa eru sérstakir safngámar fyrir þessi efni. Þau eru flokkuð í Funa og þeim komið í eyðingu

 

Molta og moltugerð

Molta er framleiðsla á jarðvegsbæti og áburði, enda mjög næringarrík. Molta er nánast lyktarlaus ef hún er vel heppnuð en hana má ekki nota eingögnu í stað moldar, til þess er hún allt of næringarrík, hana má hins vegar nýta sem áburð.  Á heimasíðu Kubbs má finna gagnlega tengla til að fræðast um moltugerð. Hún er vandasöm og krefst réttra íláta, en leiðir hins vegar augljóslega til minnkunar á sorpi.

Starfsmenn Kubbs ehf. aðstoða við og annast milligöngu um útvegun íláta til moltugerðar.

 

Svörtu ruslapokarnir hverfa!
Með breyttu fyrirkomulagi hverfa svörtu ruslapokarnir. Tunnurnar verða losaðar beint í söfnunarbílinn og því má ekki vera grjót eða annað í botninum til að varna foki, aðrar fokvarnir/festingar eru því nauðsynlegar. Auðvelt aðgengi að tunnunum er mjög mikilvægt til að geta losað þær. Vakin er athygli á að með þessu eykst mjög rúmtakið sem nýtist í tunnunni fyrir rusl.

 

Á allt heimilssorp að fara laust í tunnuna?
Heimilissorp sem fer til urðunar er heimilt að setja í tunnuna í umbúðum, plast- eða bréfpokum. Engin þörf er á að breyta um vinnubrögð við losun á "almennu heimilissorpi" til urðunar (t.d. martarafganga) en breytingin felst í meðhöndlun endurnýtanlegs og endurvinnanlegs sorps (Endurvinnslutunnan). Það er alveg ljóst að ef matarafgöngum er hent beint í almennu heimilissorptunnuna, þá verður mun erfiðara að halda tunnunum lyktarlausum og snyrtilegum að innan. Snyrtimennska er því lykilatriðið hér eins og áður.